Áberandi misræmi var í áliti dómnefnda og almennings í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 10. maí síðastliðinn. Rætt var í Útvarpinu í hádegi daginn eftir um boðskap sigurlagsins og þátttökuþjóðunum eignuð ólík afstaða til hans. Slík umræða var einnig úti í heimi (á netinu). Hér verður sýnt, að í úrslitunum er engan fót að finna fyrir því að eigna dómnefndum eða þjóðum ólíka afstöðu til boðskapar sigurlagsins, hver svo sem hann kann að hafa verið.
Þrisvar hef ég verið í íslensku dómnefndinni í þessari söngvakeppni. Þá var auglýst eftir þátttakendum í 16 manna dómnefnd. Valið var í hana meðal umsækjenda eftir aldri, búsetu og kyni. Mest var haft við dómnefndina, þegar ég var við þetta fyrsta skiptið. Þá vorum við dómarar saman mikinn hluta dagsins og fengum að sjá flutninginn þrisvar, fyrst á myndbandi, svo á lokaæfingu og loks sjálfa keppnina. Margt var rætt. Ég minnist þess ekki, að meðal okkar væri minnst á boðskap laganna. Tungumálin, sem sungið var á, voru mörg. Eitt sinn varð eistneskt lag næstefst hjá okkur í íslensku dómnefndinni. Við skildum vitaskuld ekki orð í eistnesku.
Hugsum okkur til skýringar, að fjögur lög séu flutt fyrir 16 manna dómnefnd, lögin A, B, C og D. Hugsum okkur, að fjórir dómaranna komi sér saman um að setja lagið A efst; þeir vilja með því taka undir boðskap, sem þeir eigna laginu. Hinir 12 leggja aðeins við eyrun, og dæmir hver þeirra eftir eigin smekk, en þeir skilja engan boðskap, sem orð verða höfð um. Ef smekkurinn dreifist jafnt, setja þrír þeirra A efst. Þannig er A 7 sinnum efst og verður sigurlagið. Það er þá út í bláinn að eigna dómnefndinni í heild afstöðu til boðskapar. Ef þrír dómarar koma sér saman um að setja lagið A efst og smekkur hinna 13 dreifist jafnt, verður A efst í fyrsta lagi hjá þeim þremur, og svo setja hinir 13 A minnst þrisvar efst (tölu laganna er deilt í tölu viðkomandi dómara, nefnilega 13/4=3,25). A er þá örugglega í fyrsta sæti 6 sinnum og verður efst. Ef tveir dómarar koma sér saman um að setja A efst og smekkur hinna 14 dreifist jafnt, verður A í fyrsta lagi efst hjá þeim tveimur, og svo setja hinir 14 A minnst þrisvar efst (14/4=3,5). A er í fyrsta sæti, í þetta sinn örugglega 5 sinnum.
Dómnefndinni í heild verður ekki eignaður stuðningur við neinn málstað með slíkum úrslitum. Þetta má yfirfæra á símakosninguna, sem almenningur tók þátt í í flestum landanna. Ef lítill minnihluti beitir sér í samræmi við boðskap, sem er haldið fram, að lag og flutningur hafi haft, ræður hann úrslitum, en úrslitin lýsa ekki afstöðu hinna, meirihlutans, né heildarinnar. Engin almenn afstaða til boðskapar sigurlagsins birtist. Niðurstaða keppninnar segir ekkert, sem styðjast má við til að bera þjóðirnar saman með tilliti til boðskapar sigurlagsins, og ekki heldur um mun á afstöðu dómnefnda og almennings.
Morgunblaðinu 19. maí 2014: 18