Þeir sem ætla sér mikinn hlut og ábyrgð varðandi öryggi þjóðarinnar hljóta fyrst af öllu að gera grein fyrir hvernig tryggja skuli fæðuöflun þjóðarinnar í þrengingum“

Þegar erlendir öryggismálasérfræðingar koma til að kynna sér öryggismál landsins spyrja þeir fyrst hvernig þjóðin sé stödd með eigin fæðu í þrengingum. Svo hefur sagt mér starfsmaður öryggismálanefndar alþingis. Vegna hnattstöðu landsins er ekki nema von, að slík spurning sé efst í huga þeirra, enda á varla nokkurt ríki eins langt að sækja aðföng og Ísland. Annars eru slík mál ekki verkefni öryggismálanefndar heldur athuganir og kynning á hervörnum

Lester Brown forstöðumaður World watch Institute í Washington lét þau boð út ganga á útmánuðum síðastliðinn vetur, að þurrkar í vor og sumar í Norður-Ameríku mundu leiða til þess að Bandaríkin yrðu ekki aflögufær með korn. Afleiðingarnar voru alvarlegar fyrir þau meira en 100 lönd sem kaupa korn frá BNA. Þegar svo stæði á gæti kornverð þre- eða fjórfaldast, en það hristi grunnviði heimsbúskaparins og ylli einstökum óróa í heiminum. Brown lét þess getið, að þá nægðu kornbirgðir heimsins einungis til 60 daga, að kornuppskera í heiminum hefði dregist saman um 14% síðan 1984 og að kreppa vegna umhverfisspjalla og matarskorts ógnaði mannkyninu og krefðist viðbragða eins og ófriður væri.

Í fyrra urðu miklir þurrkar í BNA og uppskerubrestur. Það kom þá í veg fyrir vandræði að kornbirgðir voru nægar frá árinu 1987, en þær gengu upp. Nú fór svo að ekki urðu jafnmiklir þurrkar og ekki uppskerubrestur.

Við sem höfum þetta sjónarsvið um fæðuöflun í heiminum eigum ekki auðvelt með að taka þátt í fyrirferðarmikilli fjölmiðlaumræðu um verð á innfluttum matvælum, þar sem viðhorfið virðist vera það að kaup á erlendum matvælum séu eins örugg og auðveld og að skreppa í næstu búð.

Við teljum slíkt viðhorf þröngt og við þröngsýnt fólk er erfitt að ræða.

Við Ólafur Ólafsson landlæknir birtum Greinagerð í blaðinu 20. júlí sl. um fæðuöflun á þrengingatímum. Við bentum á að stjórnvöld hefðu vanrækt fyrirmæli laga í þessum efnum, þ.e.a.s. hagvarnaráð fyrirmæli laga um almannavarnir og Framleiðsluráð landbúnaðarins ákvæði í búvörulögum. Við reifuðum þar í hverju styrkur þjóðarinnar og veikleiki væri fólginn.

Því tek ég þetta mál upp nú, að Samband ungra sjálfstæðismanna ályktaða um aukna þátttöku Íslands í vörnum landsins á þingi sínu í sumar (Mb. 23. f.m.). Ennfremur ályktuðu þeir um frjálsari verslun með landbúnaðarafurðir milli ríkja. Ég sé hins vegar ekki að þeir hafi vikið að þessu grundvallaröryggi þjóðarinnar, því öryggi sem aðrar þjóðir hafa ekki ábyrgst þjóðinni.

Við því er að búast að slík samtök vilji almennt vinna að frjálsari milliríkjaverslun. Hitt er jafnvíst að öryggi þjóðar verður ekki tryggt með lögmálum frjálsra viðskipta, hvorki varnir hennar né viðbúnaður. Þeir sem ætla sér mikinn hlut og ábyrgð varðandi öryggi þjóðarinnar hljóta fyrst af öllu að gera grein fyrir hvernig tryggja skuli fæðuöflun þjóðarinnar í þrengingum. Það væri glæframennska að láta það undir höfuð leggjast.

Morgunblaðinu 3. október 1989.