Formáli

Niðjatalið nær til fjögurra liða frá Guðrúnu Þorsteinsdóttur. Getið er fæðingar og dauða, hjúskapar og barna, starfs og búsetu, eftir því sem við á. Birtar heimildir um þau Björn, Guðrúnu og Guðmund eru mismiklar. Fátt segir af Birni. Fólks hans er lítillega getið í ævisögu Hannesar Þorsteinssonar, fermingarbróður Höllu Björnsdóttur. Um þau hjón Guðrúnu og Guðmund eru miklar heimildir. Mikilvægust eru rit Eyjólfs Guðmundssonar Pabbi og mamma, Afi og amma og Lengi man til lítilla stunda. Vigfús Kristjánsson segir nokkuð af fólki hennar í ritum sínum Sagnaþáttum og Í lífsins ólgusjó, en Guðrún var ömmusystir hans.

 

Af Birni Árnasyni, Guðrúnu Þorsteinsdóttur og Guðmundi Ólafssyni

Björn Árnason var fæddur á Naustum í Eyjafirði árið 1831. Hann var af eyfirsku bændafólki. Sesselja systir hans fluttist suður á land, bústýra Guðmundar prests Jónssonar á Landi, áður í Grímsey, en gerðist árið 1846 bústýra og síðar eiginkona Þorsteins bónda og garðyrkjumanns í Úthlíð í Biskupstungum Þorsteinsssonar. Var það fljótlega eftir lát konu hans Steinunnar Jónsdóttur ríka í Drangshlíð Björnssonar (1769-1850). Fluttust foreldrar Sesselju til hennar að Úthlíð og skömmu síðar Björn bróðir hennar, og þar lést Guðrún Magnúsdóttir móðir þeirra árið 1848, orðin ekkja. Samdráttur varð með þeim Birni og Guðrúnu dóttur Þorsteins og Steinunnar. Eignuðust þau soninn Árna, en ekki varð af hjúskap þeirra. Björn gekk skömmu síðar að eiga Ragnhildi Guðmundsdóttur prests á Torfastöðum Torfasonar (1798-1879). Bjuggu þau í Torfastaðakoti í Biskupstungum. Eru af þeim niðjar. Sesselja átti tvö börn með Þorsteini. Eru af þeim niðjar. Kristín, systir Björns og Sesselju, giftist Jóni Collin Þorsteinssyni frá Úthlíð, bróður Guðrúnar. Bjuggu þau síðar í Úthlíð. Eru af þeim niðjar. Það átti fyrir Birni að liggja að venslast frændliði Guðrúnar. Árni sonur hans gekk að eiga Sigríði Jónsdóttur frá Bakka í Landeyjum. Hún var þá vinnukona Þórunnar í Pétursey, systur Guðrúnar, en Oddur bróðir Sigríðar giftist um sama leyti Steinunni dóttur Þórunnar. Fluttust þau Oddur suður á Nes.

Guðrún Þorsteinsdóttir var fædd í Vatnsdal í Fljótshlíð árið 1832. Þorsteinn faðir hennar Þorsteinsson var fæddur mýdælingur, en fór í fóstur að Odda til Steingríms prests Jónssonar, síðar biskups í Laugarnesi (1769-1845). Voru þeir frændur af Steingrímsætt. Þorsteinn var sendur til Danmerkur til náms í garðyrkju og var síðan kenndur við það starf. Í Odda kynntist hann Steinunni Jónsdóttur frá Drangshlíð. Hún kom þangað til hannyrðanáms. Giftust þau árið 1821. Var sá ráðahagur fósturforeldrum Þorsteins mjög að skapi. Bjuggu þau fyrst í Vatnsdal í Fljótshlíð, og þar eru börn þeirra fædd. Þar voru þau sóknarbörn Tómasar Sæmundssonar prests á Breiðabólstað, Fjölnismanns. Þau fluttust þaðan út í Úthlíð í Biskupstungum, það var sama ár og Tómas lést. Ekkja hans, Sigríður Þórðardóttir, giftist síðar Ólafi dómsmálaritara Stephensen (1791-1872) í Viðey. Fór Guðrún þangað í vist, en var kölluð heim þegar Þórunn systir hennar fór að heiman og giftist að Pétursey bræðrungi sínum Sigurði Eyjólfssyni. Fór þá milli þeirra Björns Árnasonar, mágs Þorsteins föður hennar, eins og að framan greinir. Eftir að slitnaði milli þeirra, fór Guðrún með Árna son þeirra Björns austur í Mýrdal til Þórunnar systur sinnar í Pétursey. Tókust þar fljótt kynni með þeim frændsystkinum Guðmundi Ólafssyni í Eyjarhólum. Vildu þau eigast, þótt foreldrar Guðmundar hefðu ætlað honum annan ráðahag. Fóru þau Guðrún út í Úthlíð, og fór þar eins og þau óskuðu. Árið 1856 hófu þau búskap í Eyjarhólum—settust þar í bú foreldra Guðmundar og tóku við því. Þar bjuggu þau til 1882, að þau fluttust að Felli í Mýrdal og bjuggu þar til 1887, að þau fluttust suður á Nes. Þar hafði Árni sonur Guðrúnar keypt fyrir þau Laxnes í Mosfellssveit. Í sömu sveit, í Leirvogstungu, bjó Erlendur bróðir Guðrúnar, og á næstu grösum við Erlend Árni, í Víðinesi á Kjalarnesi. Þorsteinn faðir hennar hafði búið í Víðinesi um stuttan tíma og átti jörðina, þegar hann lést árið 1875, þá búsettur í Stöðlakoti í Reykjavík. Í Laxnesi lést Guðrún. Hún var grafin við hlið föður síns í Reykjavík.

Guðmundur Ólafsson var fæddur í Eyjarhólum í Mýrdal árið 1832. Hann ólst upp á framtaksömu heimili foreldra sinna, Ólafs Högnasonar og Ingveldar Jónsdóttur. Ingveldur var frá Drangshlíð, systir Steinunnar í Úthlíð. Fleiri voru þau systkin, sem niðjar eru komnir frá. Hér verða nefndir bræðurnir Kjartan prestur í Skógum (1804-1895), Björn í Drangshlíð og Hjörleifur í Eystri-Skógum. Eru niðjar frá þeim komnir. ? Þau Ólafur og Ingveldur byggðu fyrst í Eyjarhólum. Áður bjuggu þau í margbýli í þorpinu í Pétursey. Með því að flytja út úr þorpinu og byggja í Eyjarhólum fékkst svigrúm til athafna og nýmæla í búskap, eins og Eyjólfur Guðmundsson rekur í sögu þeirra (Afi og amma), og varð sumt öðrum fyrirmynd. Framtak þeirra með byggingu Eyjarhóla er hliðstætt útskiptingu jarða í Noregi, sem hófst á sömu árum með sérstakri löggjöf. Búskapur Guðmundar og Guðrúnar í Eyjarhólum einkenndist af framtaksemi og nýjungum, líkt og búskapur foreldra þeirra. Afkoma mýrdælinga hafði löngum verið háð sjávarafla. Útgerð Guðmundar á Pétursey, sem Jón bróðir hans smíðaði, var hátindur sjósóknar mýdælinga. Guðmundur bjó fáein ár í Laxnesi eftir lát konu sinnar, fyrst undir hússtjórn Auðbjargar dóttur þeirra, en hvarf svo austur í átthagana í Mýrdal. Þegar Eyjólfur sonur þeirra stofnaði heimili, fór hann til hans og var hjá honum á Hvoli síðustu 10 æviárin. Hann var grafinn á Skeiðflöt.

Eyjarhólaætt í Mýrdal. Niðjatal Guðrúnar Þorsteinsdóttur og manns hennar Guðmundar Ólafssonar og barnsföður hennar Björns Árnasonar 7-8, Reykjavík 1994.