Faðir hans varð þjóðkunnur fyrir að ganga landið þvert úr heimkynnum sínum í Bárðardal suður í Hreppa, áður en snjóa leysti á fjöllum. Sjálfur gat hann aldrei um þvert gólf gengið, fæddist lamaður fyrir neðan mitti. Hryggurinn var sem steyptur veggur og hendurnar krepptar. Samt gat hann matast og ritað og var í haust á námskeiði í ritgerðasmíð á vegum Menningar- og fræðslusambands alþýðu (MFA) og þótti mikið til kunnáttu leiðbeinandans koma. Fólk hans ól önn fyrir honum, fjölmennt heimili á Fljótshólum og mikill frændgarður hæfileikafólks. Þegar hann var fimm ára að aldri, dvaldist amma hans með hann alllengi í Reykjavík til lækninga og hélt til hjá Ragnhildi á Háteigi, vinkonu Sigríðar móður hans. Dóttir Ragnhildar jafngömul átti þá lengi við eftirköst brunasárs á fæti að stríða og varð því að skríða á gólfinu eins og hann. Þar eignaðist hann leikfélaga, sem ekki gat hlaupið frá honum, og má vera, að það hafi verið sælustu bernskuleikir hans.

Oft var hann axlaður af bræðrum sínum á Fljótshólum, en staður hans varð löngum við eldhúsborðið. Nokkru áður en móðir hans lést, útvegaði hún honum vist á elliheimilinu Grund í Reykjavík. Þá var hann á fimmtugsaldri og fékk eigið herbergi. Hann naut þar Einars bróður síns, sem hressti vistfólk sem sjúkraliði fyrri hluta dags, áður en hann tók til við söngkennslu síðdegis. Gestur naut menningarlífs borgarinnar, naut þess, sem samtök fatlaðra buðu, svo sem ferðalaga, og var um leið bæhreppingur í Reykjavík með frændgarð þingeyinga og Hælsfólks í kringum sig. Hann naut þess því í senn að vera á stofnun og vera hluti af sveit og stórfjölskyldu.

Löngum tíma varði Gestur til lestrar. Hann var hleypidómalaus lesandi, en lét sér ekki standa á sama. Viðræður hans um bækur voru bornar uppi af viti og dómgreind og því menntandi. Hann var forvitinn um menn og málefni og vel að sér, lét ekki vanmátt líkamans buga hug sinn. Virka daga stóð hann að morgunvökum fyrir vistfólkið á Grund ásamt Einari bróður sínum, þar sem Einar lyfti hug fólks með söng og gáska, en Gestur valdi upplestrarefni.

Ég heyrði útvarpsmann ræða við Gest. Þegar hann hafði heyrt, hvað Gestur lét vel af sér, spurði útvarpsmaðurinn "ertu ekki bjartsýnn?" Hann neitaði því, kvaðst vera æðrulaus.

Enginn kýs sér hlutskipti Gests að vera sem fótalaus og á annan hátt fatlaður, en margur mætti vera þakklátur að fá að njóta sín á eigin forsendum, eins og hann fékk, og vera hlutgengur í mannlegu félagi.

Morgunblaðinu 11. nóvember 1995