Stefán G. Þórarinsson og Margrét Björnsdóttir áttu heima í Vallanesi árið 1872, þegar fyrsta barn þeirra fæddist, hjá Einari presti Hjörleifssyni, sem kalla má stjúpafa Stefáns. Móðir hans, Kristín Gunnlaugsdóttir, dó árið 1856. Þórey Einarsdóttir frá Vallanesi varð önnur kona Þórarins Stefánssonar á Skjöldólfsstöðum og því stjúpa Stefáns. Hún var reyndar dáin, þegar hér var komið sögu, sem og faðir hans. Þegar annað barn þeirra Stefáns og Margrétar fæddist 1873, áttu þau heima í Vallaneshjáleigu. Árið 1874 fóru þau að Fossgerði (síðar Stuðlafoss) á Jökuldal. Annan dag páska 1875 (29. mars) hófst gos í Öskju, og féll mikil aska á Efra-Jökuldal. Hraktist þá svo til allt fólk þaðan. Fóru þau Stefán og Margrét norður í Vopnafjörð. Áður, tveimur mánuðum eftir að gosið hófst og land var hulið ösku, fæddist annar sonurinn; sonur hans varð 70 árum síðar víðkunnur fyrir öskulagafræði sín. Með á flótta Fossgerðisfólksins yfir Smjörvatnsheiði norður í Vopnafjörð var Járngerður Einarsdóttir, móðir Margrétar, ekkja Björns Björnssonar. Þau fengu fyrst inni á Bustarfelli. Ári síðar voru þau á Fossi. Þar fæddist fjórða barnið. Þau fóru að Kálffelli í Fossheiði 1877 og að Teigi 1879. Nýkomin að Teigi lést Margrét. Hún var grafin á Hofi 13. júní með andvana fæddu barni sínu. Eiríkur bróðir Margrétar fór að búa í Teigi um leið og Stefán, en fljótlega eftir lát Margrétar fluttist hann þaðan. Fylgdi Járngerður honum. Hún var síðan ýmist hjá honum eða í Teigi hjá Stefáni, en þegar Eiríkur fluttist með fjölskyldu sinni til Vesturheims árið 1905, fór hún til Björns Stefánssonar.

Katrín Gísladóttir varð bústýra Stefáns árið 1880. Hún hafði verið vinnukona í Reykjavík. Þar eignaðist hún barn árið 1875, Gísla Benediktsson. Faðirinn lést þremur mánuðum síðar. Fór barnið þá í fóstur að Kálfafellsstað í Suðursveit til foreldra Benedikts. Katrín hafði komið vinnukona að Valþjófsstað 1877 til Lárusar Halldórssonar prests og konu hans Kirstínar Gudjohnsen; endurspegla nöfn nokkurra barna hennar það. Katrín fluttist til Akureyrar árið 1905 með þremur börnum sínum og síðan til Reykjavíkur og bjó þar ásamt tveimur börnunum.

Niðjar Margrétar Björnsdóttur, Katrínar Gísladóttur og Stefáns G. Þórarinssonar í Teigi í Vopnafirði 2-3, Reykjavík 2001.