Sigríður Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 22. nóvember 1908. Hún lést á Landakotsspítala 9. janúar 2013. Foreldrar Sigríðar voru hjónin Ragnhildur Jónsdóttir frá Breiðholti, f. 1877, d. 1954, og Jón Árnason frá Móum, stýrimaður og skipstjóri, f. 1877, d. 1943. Systkini hennar voru Ágúst, f. 1904, d. 1944, Guðmunda, f. 1905, d. 1968, Marta, f. 1912, d. 1930, Ragna, f. 1913, d. 1997, og Ingibjörg, f. 1916, d. 2005.

Sigríður giftist 19. september 1931 Stefáni G. Björnssyni, f. 17.6. 1906 á Djúpavogi, d. 2.9. 1990, síðast framkvæmdastjóri Sjóvátryggingarfélags Íslands. Foreldrar hans voru hjónin Björn Stefánsson, verslunarstjóri á Djúpavogi og Vopnafirði, síðar í Reykjavík, f. 1873, d. 1954, og Margrét K. Jónsdóttir, f. 1874, d. 1954. Synir Sigríðar og Stefáns eru

1) Ólafur Walter, f. 20.6. 1932, lögfræðingur, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 2) Björn, f. 19.6. 1937, dr. scient. í búnaðarhagfræði, þjóðfélagsfræðingur, maki (skildu) Margareta Norrstrand (nú Björnson), menntaskólakennari, sonur þeirra Gunnar Björnsson, f. 10.11. 1969 í Reykjavík, prófessor í heimspeki við háskólann í Umeå í Svíþjóð, maki Fredrika Gullfot, líftæknifræðingur, og 3) Jón Ragnar, f. 17.2. 1941, stærðfræðingur, dósent við Háskóla Íslands.

Sigríður ólst upp í Reykjavík, en var sjö ár hjá ömmu sinni, Sigríði Jónsdóttur, og föðurbræðrum í Móum á Kjalarnesi, þar til hún kom aftur til foreldra sinna og var þá tvo lokaveturna í Barnaskóla Reykjavíkur. Hún var þá fljótt fengin til að gæta barna hjónanna Kristveigar Jónsdóttur frá Ásmundarstöðum og Kristins Jónssonar, lyfjafræðings, frá Mýrarholti, og eignaðist þannig ævilanga vináttu fjölskyldna þeirra. Hún var tvo vetur í Lýðskóla Ásgríms Magnússonar, sem var kvöldskóli. Í ársbyrjun 1928 hóf hún störf hjá bæjarsímanum (Miðstöð) og starfaði þar fram á árið 1932.

Samhliða heimilisstörfum aflaði Sigríður sér menntunar, m.a. í hannyrðum og tungumálum. Haustið 1938 fluttust Sigríður og Stefán í eigið húsnæði á Hrefnugötu 10. Í húsið fluttust þá einnig foreldrar Stefáns og áttu þar heima það, sem eftir var, og tvö systkin hans. Þar bjó Sigríður til æviloka, í 74 ár, en var síðast á þriðja mánuð á sjúkrahúsi eftir lærbrot.

Sigríður gekk í Oddfellowregluna árið 1954 og Kvenfélagið Hringinn árið 1960 og tók virkan þátt í félagsstarfi. Hún var meðal stofnenda Inner Wheel Reykjavík árið 1973. Viðburði í þessum samtökum sótti hún fram á 104. aldursár.

Þegar Sigríður lést, var hún næstelst þeirra, sem voru fæddir í Reykjavík.

Morgunblaðinu 23. janúar 2013 (inngangur að eftirmælum um hana, lítið breyttur)