Stefán Þ. Þorláksson fæddist 28. september 1930. Hann lést 22. ágúst 2014. Útför Stefáns fór fram 1. september 2014.

Menn minnast maklega frásagnarlistar Stefáns Þorlákssonar. Leikur hans með frásögur linaði þrautir og sárindi eftir bílslysið, sem hann lenti í 17 ára og getið var í eftirmælum hér í blaðinu. Þá brotnaði hryggurinn og höfuðkúpan. Eftir slysið var hann um tíma án meðvitundar. Þrautir eftir áverka og löskuð líffæri voru viðfangsefni lækna alla ævi hans. Atvik í kringum slysið ollu honum sárindum, sem ekki voru meðfæri lækna. Sárindin földust undir brosi og hlátri og komu sjaldan fram, en þá var harmurinn þungur. 

Þétt handtak Stefáns var engu líkt. Það var hressilegt ákall um vináttu. Vitaskuld varð honum fleira en vinátta og leikur með frásögur til að lina þrautir og sárindi. Sjaldnast sagði hann af sjálfum sér. Í tveimur frásögum kunna orð hans að hafa orðið dráttur í sögu þjóðarinnar; reyndar vörðuðu þær báðar forsetaframboð. Í afmæliskaffi Stefáns áttræðs á dvalarheimilinu á Þórshöfn gerðist ég svo djarfur að segja þær; áður hafði hann flutt gestum kvæði um ástina eftir Einar Benediktsson, vitaskuld upp úr sér. Hann lét sér endursögn mína af sögunum vel líka. Því leyfi ég mér að birta þær.

Fyrri atburðurinn var, þegar Stefán var kominn til starfa á Hagstofunni (1965-1968). Fyrst þarf að geta þess, að Kristinn og Sæmundur Stefánssynir frá Völlum í Svarfaðardal voru oft við veiðar í Svalbarðsá og héldu þá til heima á Svalbarði. Þannig eignaðist Stefán ungur vináttu þeirra og kynntist því einnig Sigríði, systur þeirra, Thorlacius. Hún var þjóðkunn fyrir störf að félagsmálum, meðal annars sem formaður kvenfélagasambandsins og sambands framsóknarkvenna. Maður hennar var Birgir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Stefán átti eitt sinn erindi fyrir Hagstofuna við Halldór Pálsson, búnaðarmálastjóra. Þegar hann kom í Bændahöllina, var honum sagt, að menn væru inni hjá Halldóri, og var honum boðið sæti og kaffibolli, meðan hann biði. Skömmu síðar kemur Halldór fram, gengur til Stefáns og heilsar með virktum og segir, að hjá honum séu menn, og nefnir Kristján Thorlacius, og ræði það, að Birgir Thorlacius verði boðinn fram til forseta. Þá sagði Stefán að bragði: Hann gæti orðið ágætis forsetafrú. Við þessi orð strauk Halldór hendinni niður eftir sínu langa andliti, eins og hann átti til, þegar hann skildi eitthvað sniðugt. Þar með lauk því framboðsmáli.

Síðan var það í janúar 1980, að Stefán lá á Landspítalanum vegna hryggbrotsins, lá þar á stofu með erlendum manni, sem ekki skildi íslensku. Þá kom til hans trúnaðarvinur hans, Vigdís Finnbogadóttir, leikhússtjóri. Hún sagði honum það, sem ekki var opinbert, að til stæði, að hún yrði forsetaframbjóðandi íslenskra kvenna. Stefán sagði að bragði: Láttu engan mann heyra þetta. Forsetinn er forseti allrar þjóðarinnar. Stefán taldi, að slík orð opinber hefðu getað riðið baggamuninn, þegar kosið var í júní.

Morgunblaðinu 9. október 2014: 88