Til eru þeir, sem komist hafa í sterka stöðu í ríki lýðræðis, sem er eins ófullkomið og vitanlegt er, en kæra sig kollótta um skoðanir annarra, ef þeir geta, hvaða reglur sem hafðar eru við að greiða atkvæði og kjósa. Ég nefni sem dæmi stofnun með háleitar hugsjónir um mannvirðingu. Ég ræddi við forstöðumanninn, hvernig mætti leita ráða fólks á staðnum með sjóðvali. Hann benti á, að það mundi skerða völd hans, ef skoðanir þess kæmu fram með tölum. Hann sýndi ekki frekari áhuga. Háttsettur embættismaður benti á það í umræðu, ef raðval væri viðhaft, en það auðveldaði vissulega að leggja fleiri afbrigði máls fyrir til umfjöllunar, að forystan gæti ekki eins og nú látið fjalla einungis um eitt afbrigði málsins, það, sem henni líkaði best. Oddviti hreppstjórnar nokkurrar, þar sem aðrir voru fúsir til að reyna sjóðval, taldi hættu á, að einsýnn minnihluti fengi færi á að ríkja. Hann blés á rök og reynslu, sem ég kynni í bókinni,og honum varð ekki haggað. Ég skildi ekki hvers vegna, en var síðar spurður, hvort það væri bara ekki svo, að hann vildi ráða sjálfur.

Fólk þarf að skynja, að það er ánægjulegt að starfa, þar sem mál eru tekin fyrir opinskátt, eins og raðval og sjóðval örva til. Meðal annars á forystan kost á að setja fram eigin skoðanir, en þarf ekki, eins og oft er hlutskipti hennar, að setja aðeins fram skoðanir, sem hún heldur, að verði samþykktar.

Reynsla af gölluðum aðferðum við atkvæðagreiðslu og kosningu elur á vantrú á lýðræði. Fólk vill gjarna kjósa sér foringja, eins og flokksformann, en lætur svo foringjann komast upp með að óvirða skoðanir þess. Hlutverk flokksforingja er að ná kjöri og að vinna að málum, og þá kann þeim að finnast, eins ófullkomnar og reglur lýðræðisins eru, að þeir verði að sniðganga kjósendur sína.

Þótt mælt sé með raðvali og sjóðvali, er ekki með því sagt, að mál skuli oftar borin undir atkvæði almennings, en með raðvali og sjóðvali fær það nýja merkingu að bera mál undir fleiri en þá, sem sitja í hreppstjór nog á þingi.

Er eitthvað rótgróið í menningu, sem gerir menn lýðræðislega? Það má vera táknrænt, að það var herskólagenginn maður og hermaður að atvinnu, sem lét afnema raðval í Vísindafélagi frakka. Foringja fellur ekki, að fólk hafi um margt að velja, eins og raðval býður upp á. Þá verður hugsunin ekki eins og við einvígi, ekki spurning um annaðhvort eða, eins og stríðshugsunin er.

Þegar fulltrúasamkoma er kosin, eins og hreppstjórn og alþingi, er litið á það sem verið sé að vinna valdasigur, líkt og stríð er spurning um sigur á vígvelli. Sá, sem vinnur kosningu, hefur eignast völdin. Síðan verður hver atkvæðagreiðsla spurning um, hvort sigurvegararnir sanni, að þeir haldi völdum. Við sjóðval á slíkur hugsunarháttur ekki við.