Árið 2004 var þjóðinni valið blóm. Stuðst var við skoðanakönnun á vegum Landverndar og Morgunblaðsins. Þetta var á hendi hins opinbera, stjórnað af fulltrúum fjögurra ráðuneyta, en Landvernd hafði framkvæmdina. Skoðanakönnunin fór fram á netinu 1. til 15. október með póstlögðum atkvæðaseðlum, sem birtust í Morgunblaðinu. Úrslit voru kynnt á fundi í Salnum í Kópavogi 22. október að viðstöddum forseta Íslands og landbúnaðarráðherra. Þátttakendur voru 7025 og gildir seðlar 6919. Þar var því lýst, að stuðst hefði verið við raðvalsaðferð, þannig að þátttakendur gátu skipað ákveðnum sjö blómum í 1. til 7. sæti.

Holtasóley naut mest stuðnings og fékk 21.943 stig, en fast á hæla hennar komu gleym-mér-ei (21.802 stig) og blóðberg (21.385 stig). Blágresi naut einnig víðtæks stuðnings (19.243 stig). Minna fór fyrir stuðningi við hrafnafífu, lambagras og geldingahnapp. 

Vorið 2004 voru kynntar tuttugu tillögur að þjóðarblómi. Eftir umfjöllun um sumarið og ábendingar frá skólum landsins var hringurinn þrengdur um framangreind sjö blóm. Þegar svo var komið, benti framkvæmdastjóri Landverndar á, að ráðlegt væri að hafa raðval, ella gæti orðið erfitt að túlka tölur úr skoðanakönnuninni. Verkefnisstjórn ákvað að hafa það svo. Þótt munur á stigum þriggja efstu blómanna væri svona lítill, hefur niðurstaðan notið viðurkenningar.

Framkvæmdastjóri Landverndar ráðfærði sig við forstöðumann Lýðræðissetursins um aðferðina og telur, að sú ráðgjöf hafi ráðið miklu um, hve vel gekk að fá niðurstöðu, sem víðtæk sátt var um. Ákvörðunin að nota raðval við val á þjóðarblómi Íslands hafi jafnframt verið viðurkenning á starfsemi Lýðræðissetursins. Forritið, sem haft var til útreiknings, var á ábyrgð Morgunblaðsins.