Almenn atkvæðagreiðsla um nýskipan hreppanna í landinu fór fram árið 1993. Nefnd á vegum ríkisins hafði lagt til sameiningu, sem varðaði mestan hluta landsins. Tillögurnar voru bornar upp í viðkomandi hreppum. Í tveimur þriðju hreppanna snerist meirihlutinn á móti tillögu nefndarinnar. Þó að tillögunni væri hafnað, varð ekki vitað, hvað fólk vildi, þar sem ekki var víst, að fólk vildi óbreytt ástand.
Skömmu eftir þessa atkvæðagreiðslu stóð oddviti hreppstjórnar að annarri könnun á afstöðu almennings í hreppnum til nokkurra kosta á að sameina hreppinn öðrum. Fólk fékk aðeins að merkja við einn kost. Svörin dreifðust býsna mikið, og það var erfitt að túlka þau. Enginn kostur fékk yfirburða fylgi. Oddvitinn ætlaði, að þeir, sem ekki studdu þann kost, sem fékk flest atkvæði, hefðu aðeins getað náð saman um að vera á móti honum, en verið sundraðir um það, sem þeir vildu. — Þetta er dæmigert fyrir skoðanakannanir, að fólk getur sameinast um að vera á móti án þess að geta almennilega tjáð sig um, hvað það vilji heldur. Þegar tillaga er um fleira en tvennt, getur dreifing svaranna líka gert erfitt fyrir um að túlka niðurstöðuna.
Stuttu síðar stóðu sex hreppstjórnir á sama svæði að raðvali til að kanna afstöðu almennings til hugmynda um nýskipan hreppanna. Var það gert samhliða venjulegri kosningu hreppstjórnar. Spurt var, hvort fólk vildi halda í hreppinn eða sameina hann næstu hreppum, fleiri eða færri. Í þremur hreppanna voru lagðir fram sex kostir um hreppaskipan, sem kjósendur gátu matsraðað, í tveimur hreppanna voru kostirnir sjö, og í einum hreppnum var um átta ólíkar lausnir að tefla.
Aðferðin var útskýrð fyrirfram. Þess varð ekki vart, að kjósendur ættu í vandræðum með hana. Atkvæðaseðlar í hreppunum sex voru (í sviga tala atkvæða við kosningu til hreppstjórnar) 53 (54), 88 (106), 83 (85), 135 (141), 169 (200) og 357 (372).
Algengt var, að aðeins væri merkt við einn kostinn. Það gerðu trúlega þeir, sem vildu óbreytta skipan.
Kostirnir hlutu að líkjast hver öðrum í einstökum hreppum, þar eð hrepparnir lágu hver að öðrum, en þeir þurftu ekki að vera eins; í tveimur hreppum, sem lágu saman frá austri til vesturs, gat t.a.m. verið um það að ræða að leita samlags í austur og vestur, og þá varð það ekki sama svæði fyrir þá báða.
Eins og þarna stóð á, skipti máli að vita, hvort áhugi á nýskipan var gagnkvæmur í nágrannahreppum. Með athuguninni skýrðist það. Það má þakka aðferðinni.
Niðurstaðan í einum hreppanna var þessi:
A | 269,5 |
B | 234,5 |
C | 171,0 |
D | 176,5 |
E | 115 |
F | 233,5 |
Oddvita hreppstjórnar líkaði ekki, að niðurstaðan skyldi birtast þannig, að kostur, sem enginn hafði sett efstan (E), fengi 115 stig fyrir það eitt, að hann hafði lent með öðrum kostum í neðsta sæti hjá býsna mörgum. (Reyndar var þetta sú skipan, sem ríkisnefndin hafði lagt til). Niðurstaðan mundi birtast öðru vísi, ef lægsti kostur-inn, þ. e. E, yrði eftir samlagningu stiganna lækkaður niður í 0 og aðrar stigatölur lækkaðar jafnmikið. Þá birtist niðurstaðan þannig (fyrri röð til vinstri):
A | 269,5 | 154,5 |
B | 234,5 | 119,5 |
C | 171,0 | 56,0 |
D | 176,5 | 61,5 |
E | 115 | 0 |
F | 233,5 | 118,5 |
Hér stendur sá kostur, sem enginn tók fram yfir neinn hinna, með 0 stig.
Lýðræði með raðvali og sjóðvali 2003